Fyrsti veiðitúrinn hjá Sighvati GK 57 hluti af nýrri vegferð í öryggismálum

Farið yfir neyðaráætlun skips í nýliðafræðslu
Farið yfir neyðaráætlun skips í nýliðafræðslu
Gísli Níls Einars, sérfræðingur í öryggisstjórnun fór í viku túr með Sighvati GK 57 í lok ágúst. Ferðin var hluti af nýrri vegferð Vísis í öryggismálum sjómanna, í samstarfi við Öryggisstjórnun ehf.

Gísil Níls segir að megintilgangur ferðarinnar hafi verið að kynnast betur stöðu öryggismála og aðbúnaði og starfi sjómanna um borð í Sighvati. Besta leiðin til þess sé að sjálfsögðu að fara sjálfur á veiðar með sjómönnunum. Þó Gísli Níls hafi verið á sjó þegar hann var ungur eru nær 30 ár síðan hann fór síðast og þetta var hans fyrsta ferð á línuskipi.

Þegar unnið er að öryggismálum á sjó telur Gísli mikilvægt að hlusta á sjómennina sjálfa og heyra hvar þeir sjá tækifæri til að efla öryggismál um borð og hvernig þeir sjá fyrir sér nýtingu stafrænna lausna í öryggismálum til sjós. Aðspurður segist Gísli hafa sloppið við sjóveikina sem þessu starfi getur fylgt, þótt hún hafi aðeins bankað upp á í nokkra klukkutíma á degi tvö.

Gísli Níls býr yfir viðamikilli reynslu á sviði öryggismála og er eigandi Öryggisstjórnunar ehf. Um sjómannahelgina skrifaði Vísir undir þriggja ára samstarfssamning við Öryggisstjórnun ehf. Markmið samstarfsins er að koma á samræmdum og stafrænum áherslum í skipulagi og framkvæmd öryggismála í útgerðarstarfsemi Vísis. Gísli mun einnig taka túr með öðrum skipum Vísis og fara yfir stöðu öryggismála með áhöfnum þeirra. Þegar við náðum tali af honum var hann nýstiginn frá borði og næst á dagskrá var að ná sjóriðunni úr sér.