Nýsmíðin Páll Jónsson afhent eigendum við formlega athöfn í Gdansk í dag.

Skipstjórinn Gísli V. Jónsson og guðmóðir skipsins Svanhvít Daðey Pálsdóttir
Skipstjórinn Gísli V. Jónsson og guðmóðir skipsins Svanhvít Daðey Pálsdóttir

Nýsmíðin Páll Jónsson var formlega skírt og afhent eigendum við hátíðlega athöfn í Gdansk í dag þar sem eigendur, starfsmenn og fleiri voru komnir saman til að fagna og skoða nýja skipið. 

Eins og fyrr hefur verið sagt er þetta fyrsta nýsmíðin af þessarri stærðargráðu í rúmlega 50 ára sögu Vísis og við fyrstu sýn eru eigendur ánægðir með hvernig tókst til. Skipið er nefnt eftir föður Páls Hreins Pálsonar, aðalstofnanda Vísis, eða eins og flestir þekktu hann, sem Palli í Vísi.
Þegar skipi er gefið nafn er sá vani á að slengja kampavínsflösku utan í kinnung þess svo úr freyði. Svanhvít Daðey Pálsdóttir, ein af systkinunum og eigendunum fékk titilinn guðmóðir skipsins og hjó hún á snúruna svo kampavínsflaskan small í og minnst var Alberts Sigurjónssonar, eiginmanns hennar sem lést í maí eftir harða baráttu við krabbamein og skyldi eftir stórt skarð í hjarta fyrirtækisins.

Næst á dagskrá er að sigla skipinu í heimahöfn og mun skipið styðja enn betur við stefnu fyrirtækisins um ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði sem leiðir til framleiðslu afurða úr fyrsta flokks hráefni.