Sjálfvirknivæðing fiskvinnslunnar með þeim fremstu á heimsmælikvarða

Áframhaldandi vöruþróunarsamstarf við Marel hefur gengið vonum framar á árinu 2020. Nýir pökkunarróbótar voru settir upp fyrr á árinu. Nú í nóvember var tveimur eldri róbótum skipt út fyrir nýja og eru þeir þá samtals fimm róbótar í vinnslunni. Enn fremur var bætt við sjálfvirku kassakerfi sem setur plastfilmu og ís í kassana og lokar kössunum. Þjónustusérfræðingar hjá Marel á Íslandi og í Danmörku unnu að uppsetningunni ásamt vélstjórum og sérfræðingum hjá Vísi. Uppsetning á tímum COVID hefur eðlilega haft áhrif á starfshætti. Þar sem starfsmenn frá báðum fyrirtækjum þurftu að koma saman fóru allir í COVID próf áður og Danirnir unnu allt frá Danmörku í fjarsambandi. Uppsetningin hófst um hádegi á föstudegi og framleiðslan hjá Vísi var komin aftur í gang næsta mánudag. Þetta verður að teljast ótrúlegur árangur hjá öllum þeim sem komu að verkefninu.

 

Á einu ári hefur töluvert af nýrri tækni bæst við í vinnsluna. Í nóvember í fyrra var settur upp nýr pökkunarróbót, RoboBatcher, til að pakka fiskhnökkum, sporðum- og flökum í kassa. Til gamans má geta þess að róbótinn fékk nafnið Robbi hjá samstarfsfólki sínu eftir að hafa sannað gildi sitt. Í maí var svo fleiri róbótum bætt við fyrir sjálfvirka pökkun, skömmtun á fiskbitum og heilum flökum. Einnig var sett upp nýtt sjálfvirkt kassakerfi þar sem gengið er frá fullum kössum, þeir merktir, ís settur í og þeim lokað í öruggu flæði.

 

Vísir notar nú allt FleXicut kerfið, þar með talið sjálfvirka dreifingu á bitum og flökum sem sett var upp árið 2017 og beint flæði forsnyrtra flaka sem hægt er að rekja til hvers starfsmanns á línunni inn í FleXicut vélina. Allt kerfið er tengt miðlægum hugbúnaði sem safnar gögnum um vinnsluferlið og sendir sjálfvirka endurgjöf í rauntíma um gæði og afköst til hvers og eins starfsmanns á snyrtilínunni, byggt á rauntímagögnum. Framleiðni fyrirtækisins hefur aukist verulega og þetta hefur gert okkur kleift að nýta fiskinn betur og auka afköstin, samhliða því að bjóða upp á sveigjanlegra vöruframboð.

 

Tilkoma FleXicut kerfisins árið 2017 var stórt skref fram á við í sjálfvirkni í fiskvinnslu og hefur það aukið afköst og bætt verulega heildarafrakstur og gæði. Eins og alltaf þegar sjálfvirkni eykst verður tilflutningur á störfum innan fyrirtækisins. Innleiðing nýrra pökkunarróbóta hjá Vísi hefur aukið þörfina fyrir starfsfólk með sérhæfða þekkingu og menntun. „Það eru færri störf í pökkun núna en fleiri í gæðaeftirliti hjá okkur,“ segir Ómar Enoksson, framleiðslustjóri Vísis.

 

Í umfjöllun um samstarfið á heimasíðu Marel sagði Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðarins hjá Marel „Þessi síðustu fimm ár í samvinnu við Vísi hafa verið spennandi fyrir okkur hjá Marel. Við deilum ástríðu fyrir því að vera brautryðjendur í greininni og þegar litið er til framleiðslunnar í dag er ljóst að við höfum náð frábærum árangri. Við hlökkum til framtíðarverkefna okkar saman!“

 

Nánari umfjöllin um vöruþróunarsamstarfið í heild sinni er að finna á heimasíðu Marel.