Vísir hf með opið hús og minningartónleika á sjómannadaginn

Í tilefni þess að Vísir hf. í Grindavík fagnar 50 ára afmæli sínu verður fyrirtækið með glæsilega dagskrá á sjómannadeginum 7. júní á Sjóaranum síkáta.

Klukkan 14 - 17 þann dag býður Vísir bæjarbúum og gestum Sjóarans síkáta að skoða fiskvinnslur fyrirtækisins undir leiðsögn eigenda. Boðið verður uppá fiskismakk, afmælisköku og lifandi tónlist. Saltfiskvinnsla fyrirtækisins hefur verið starfrækt í hálfa öld að Hafnargötu 16. Fyrirtækið er nú einnig að taka í notkun nýtt hátæknifrystihús að Miðgarði 3 til að mæta breyttum áherslum í greininni. Allir velkomnir.  

Kl. 20:00 verða Minningartónleikar um Palla og Möggu [stofnendur Vísis] í Grindavíkurkirkju. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni 50 ára afmælis Vísis hf. Þar flytja börn þeirra Palla og Möggu hárómantísk sjómannalög af nýútgefnum diski þeirra „Lögin hans pabba“. Með þeim eru landskunnir hljóðfæraleikarar undir stjórn Vilhjálms Guðjónssonar og sérstakur gestasöngvari verður Ragnar Bjarnason. Diskurinn verður til sölu á staðnum og rennur söluandvirði hans óskipt til Grindavíkurkirkju. Frítt inn og allir velkomnir.