"Wild Icelandic Cod" sigurvegarar Hnakkaþonsins

 

Vísir lék stórt hlutverk í útflutningskeppni sjávarútvegsins, Hnakkaþon,  sem var haldið í síðustu viku á vegum HR og SFS.  Áskorunin snerist um að móta tillögur að því hvernig Vísir gæti aukið fullvinnslu í neytendaumbúðir á ferskfiski á Íslandi á sama tíma og fullt tillit væri tekið til kostnaðar, sjálfbærni og umhverfisáhrifa, og unnu nemendur meðal annars með Marel og Prentsmiðjunni Odda.  Fimm lið skiluðu inn fjölbreyttum tillögum en vinningstillagan í Hnakkaþoninu 2017 bar heitið "Wild Icelandic Cod" og snerist um sérstakar umbúðir sem leggja áherslu á ferskleika, gæði, umhverfisvernd og sögu Vísis en innihalda líka einfaldar uppskriftir, sem henta meðvituðum neytendum í nútímasamfélagi.

 

Erla Ósk Pétursdóttir, gæða- og þróunarstjóri Vísis, átti sæti í dómnefnd Hnakkaþons og var afar ánægð með tillögur allra hópanna. Hún hrósaði nemendunum fyrir heildrænar og umhverfisvænar lausnir og bætti við að "nokkrar tillögur voru mjög framúrstefnulegar hvað varðar umbúðir og pökkunaraðferðir sem við munum fylgjast náið með í framtíðinni."  Til stendur að vinningsliðið komi í heimsókn til Vísis í Grindavík og hlakka Erla til þess. "Það verður gaman fyrir vinninsliðið að sjá starfsemi fyrirtækisins með eigin augum og ekki verður síður gaman fyrir okkur að fá að ræða við þá um lausnina og hvernig við gætum hugsanlega nýtt okkur hana."  Að lokum var Erla afar þakklát fyrir að fá að taka þátt í þessu verkefni. "Það er afar mikilvægt fyrir Vísi, eins og önnur sjávarútvegsfyrirtæki, að vera í góðum samskiptum við háskólasamfélagið þar sem starfsemi okkar er alltaf að þróast og verða fjölbreyttari og þörf okkar á góðu starfsfólki með ólíkan bakgrunn að aukast.  Að sama skapi viljum við að nemendurnir viti hversu spennandi og margbreytilegur þessi atvinnuvegur er og að þau líti til sjávarútvegsins sem mögulegs starfsvettvangs í framtíðinni."

 

Í dómnefnd Hnakkaþons 2017 sátu: Ari Kristinn Jónsson, rektor HR; Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands; Bjarni Guðjónsson, sölustjóri sjávarútvegs hjá Odda; Erla Ósk Pétursdóttir; Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips; Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo; Hallur Þór Sigurðarson, aðjúnkt við viðskiptadeild HR; Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður B.Sc. náms við viðskipta- og hagfræðideild HR; Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS og Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Blámar.

 

Fréttatilkynning HR um sigurlið Hnakkaþons 2017: http://www.ru.is/haskolinn/frettir/wild-icelandic-cod-vinnur-hnakkathonid-2017