,,Ég ætlaði nú bara að vera með honum á síldveiðum í rúmlega mánuð en það urðu nú 40 ár"

Enok og Anna eiginkona hans í kveðjukaffi
Enok og Anna eiginkona hans í kveðjukaffi

Heimasíðan náði tali af Enoki Guðmundssyni sem lætur af störfum hjá Vísi eftir 40 farsæl ár hjá fyrirtækinu. Hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 1978 og er vel þekktur meðal starfsmanna Vísis, enda með lengsta starfsaldurinn í fyrirtækinu.

Enok ber Vestfjarðarblóðið í æðum sér, er fæddur í Bolungarvík og bjó þar til þrettán ára aldurs þegar hann og fjölskylda hans flutti suður í Hafnarfjörð. Þar kynnist hann eiginkonu sinni Önnu sem bjó í sömu götu. Enok stundaði nám í Flensborgarskóla og fór til sjós árið 1960. Tíu árum seinna fór hann í stýrimannaskólann og kláraði hann á tveimur árum, þá 28 ára gamall. Leið hans lá þá aftur á sjóinn frá Hafnarfirði með skipstjóra sem hann vann með lengi. Með sama skipstjóra sótti hann sjóinn frá Sandgerði og fylgdi honum síðar til Grindavíkur þegar Palli í Vísi bauð honum bát hjá sér. 
,,Ég ætlaði nú bara að vera með honum á síldveiðum en það varð aðeins lengur. Ætlaði að vera í mánuð eða rúmlega mánuð en það urðu nú 40 ár” segir Enok.

Mikil breyting
Fyrstu árin keyrði Enok á milli Grindavíkur og Hafnarfjarðar og man þá tíma frá árinu 1963 þegar engar vegabætur voru, að ferðin tók mun lengri tíma og oft erfitt að komast heim í Hafnarfjörðinn. ,,Það hefur breyst með tíð og tíma og er nú stutt í höfuðborgina og góðar vegasamgöngur hér á milli” nefnir hann. Árið 1980 flutti fjölskyldan til Grindavíkur og hefur líkað vel. Enok starfaði sem stýrimaður allan þann tíma sem hann var til sjós hjá Vísi, á bátunum Fjölni, Sighvati og Hrugni. Hann minnist þess tíma þegar bátarnir voru ekki yfirbyggðir svo öll vinna var úti í kuldanum. 
“Svo var ég í öllu mögulegu eftir að ég kom í land, fiski, veiðarfærum, löndun, öllu mögulegu, allt sem til féll bara. Maður var mættur í vinnuna klukkan 7 og unnið til klukkan 19:00. Áður fyrr var yfirleitt unnið á laugardögum og sunnudögum en þetta hefur breyst mikið síðan þá”.

Spurður hvað tæki nú við eftir vinnu nefnir Enok að göngutúrar hafa bæst við sundið, en hann hefur farið í sund á hverjum degi frá 1990. Þau hjónin fara nú líka reglulega í bústaðinn þeirra og til útlanda svo það er nóg fyrir stafni. Enok hefur þó ekki alveg sagt skilið við fyrirtækið þar sem hann tekur rúntinn á hverjum morgni niður á höfn og fylgist með gangi mála. ,,Svo er nú gaman að fylgjast með fiskeríinu í tölvunni og öðru, maður hættir aldrei að fylgjast með” segir hann og hlær.