Fræðslustjóri að láni fyrir Vísir hf. í Grindavík

Í gær 12. janúar undirritaði Vísir hf. samning við Landsmennt um fræðslustjóra að láni. Þá var undirritaður samningur við Markviss ráðgjafa frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) um framkvæmd verkefnisins.

Verkefninu er ætlað að greina þörfina á fræðslu fyrir starfsfólk í landvinnslu fyrirtækisins og gera áætlanir um námskeið sem mynda mun fræðsluáætlun fyrirtækisins næstu misseri.

Hjá fyrirtækinu starfa um 128 starfsmenn, þar af eru 108 sem eru félagsmenn í Vlf. Grindavíkur, Afli Starfsgreinafélagi og Framsýn stéttarfélagi, öll innan Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og tilheyra Landsmennt fræðslusjóði.

Starfsemi Vísis hf. byggist aðallega á útgerð og landvinnslu og beinist verkefnið að starfsmönnum landvinnslu fyrirtækisins í Grindavík.

Miklar breytingar áttu sér stað á síðasta ári í rekstri fyrirtækisins og við það fjölgaði starfsmönnum þess í Grindavík til muna. Það er von samningsaðila að verkefnið stuðli að markvissu starfi fyrirtækisins á sviði fræðslumála og aukinni starfsánægju starfsfólks.