Gæðaskoðun í stað snyrtilínu

Í síðustu viku tók Vísir í notkun nýja gæðaskoðunarlínu frá Marel og kom hún í stað snyrtilínunnar, sem hingað til hefur verið ómissandi hluti frystihúsa hér á landi. Frá því að frystihúsið opnaði árið 2014, með FleXicut skurðarvélina í fararbroddi, hafa reglulega orðið breytingar til að bæta flæðið í gegnum húsið og auka gæði.  Nýja gæðaskoðunarlínan er stór og mikilvægur þáttur í þeirri þróun. 

Tilkoma FleXicut var ein mesta tæknibyltingin í vinnslu bolfisks síðan flökunarvélarnar voru fundnar upp, og leysti mest af þeim störfum sem unnin voru á snyrtilínunni.  FleXicut skurðarvélin vigtar og skannar lögun flaksins, sker beinagarðin burt og sker flakið í bita eftir því sem er hagstæðast hverju sinni.  Með tilkomu gæðaskoðunarlínunnar verður tæknin í FleXicut nýtt til hins ýtrasta. 

Samkvæmt Ómari Enokssyni, framleiðslustjóra frystihússins, þá sáu þau strax mikinn mun á flæðinu. „Gæðaskoðunin raðar flökunum inn á skurðarvélina sem gerir það að verkum að flæðið í gegnum vinnsluna verður jafnara.  Og núna nýtum við röntgen tæknina til að finna beinin og þar sem gæðaskoðunarlínan er samtengd skurðarvélinni er gæðaeftirlitið í raun orðið rafrænt“ sagði Ómar.