Rafrænt bingó í ár í stað jólahlaðborðsins

Þar sem ekki var hægt að halda jólahlaðborð Vísis í ár var ákveðið að bjóða starfsfólki upp á rafræna skemmtun síðastliðið föstudagskvöld. Peninginn, sem annars hefði farið í hlaðborðið, fékk starfsfólkið í formi gjafakorts og var það hvatt til að kaupa sér góðan mat og drykki til að hafa með á skemmtuninni. Dagurinn byrjaði með jólapeysuþema og um kvöldið hélt leikarinn Atli Þór Albertsson uppi stuðinu með rafrænu jólabingói, þar sem í boði voru veglegir vinningar frá fyrirtækjum í heimabyggð. Inn á milli söng svo Hanna Mía Brekkan jólalög frá ýmsum löndum. Skemmtunin tókst vel og var þátttakan góð á þessum nýja vettvangi.