Fréttir

Vísir hlaut Þekkingarverðlaunin 2018

Vísir hf. hlaut Íslensku þekkingarverðlaunin í ár en Vísir ásamt Arion banka, HB Granda og Skagans 3X voru tilnefnd til þekkingarverðlauna Félags viðskipta- og hagfræðinga. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Íslenska þekkingardeginum í Iðnó á föstudaginn. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, veitti verðlaununum viðtöku og var að vonum ánægður með viðurkenninguna: „Þetta er góð viðurkenning fyrir þá vinnu sem starfsfólk okkar hefur unnið síðasta áratuginn og mikil hvatning til að halda áfram á sömubraut.“ Pétur sagði einnig að það að þrjú af tilnefndu fyrirtækjunum kæmu úr sjávarútvegi væri „staðfesting á því hvar sjávarútvegurinn stendur í tæknibyltingunni. Samstarf sjávarútvegsins og tæknifyrirtækjanna væri að verða mjög sýnilegt.“ Við val á þekkingarfyrirtæki ársins 2018 var horft til þeirra fyrirtækja sem eru leiðandi í stafrænum lausnum og hafa með nýsköpun í tækni bætt rekstrarumhverfi fyrirtækisins. Leitað var eftir fyrirtækjum sem hafa með aukinni sjálfvirkni bætt þjónustu, afköst, nýtingu og/eða framleiðni. Einnig var mikilvægt að fyrirtækin starfi í sátt við samfélagið og séu með ríka umhverfisvitund. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Vísir hafi náð eftirtektarverðum árangri í rekstri sínum og aukið framleiðni og skilvirkni með innleiðingu og þróun stafrænna lausna. Vísir hafi með innleiðingu stafrænna lausna náð hagræðingu í rekstri með virkri stýringu flotans, nýtingarauka og hærra hlutfalli í betur borgandi afurðir. Þannig opnar tæknin þann möguleika að Vísir klári framleiðsluferlið beint í neytendapakkningar sem spara milliflutninga og milliumbúðir, en það sé stórt skref í að minnka kolefnisspor sjávarútvegsins ennfrekar. Þetta var í 18.sinn sem félagið stendur fyrir Íslenska þekkingardeginum og hér má sjá lista yfir þau fyrirtæki sem hafa hlotið Þekkingarverðlaun FVH (tilnefnd fyrirtæki innan sviga): 2000 Íslensk erfðagreining (Búnaðarbankinn, Hugvit, Össur) 2002 Marel (Bakkavör, Íslensk erfðagreining, Össur) 2003 Íslandsbanki (Kaupþing, Össur, Landsbankinn) 2004 Actavis (Pharmaco) (KB-banki, Baugur Group, Medcare Flaga) 2005 KB-banki (Baugur Group, Össur) 2006 Actavis (Avion Group, Bakkavör) 2007 Actavis (Marel, Össur) 2008 Össur (Norðurál, Kaffitár) 2009 CCP (Marel, Össur) 2010 Fjarðarkaup (CCP, Icelandair, Össur) 2011 Icelandair (Rio Tinto Alcan á Ísland, Samherji) 2012 Marel (Eimskip, Landspítali háskólasjúkrahús) 2013 Bláa lónið (Icelandair Group, True North) 2014 Ölgerðin (Össur, Já og LS Retail) 2015 Kerecis (ORF Líftækni, Carbon Recycling International) 2016 Íslandsbanki (Kolibri, Reiknistofa bankanna) 2017 Bláa lónið (Norðursigling, Íslenskir fjallaleiðsögumenn) 2018 Vísir hf. ( Arion banki, HB Grandi, Skaginn 3X)
Lesa meira

Myndband af Sighvati GK 357

Við stöndumst ekki mátið að setja þetta fallega myndband á heimasíðu okkar, en það tók Jón Steinar Sæmundsson í síðustu viku af happaskipinu Sighvati á leið í róður á sinni síðustu vetrarvertíð. Eins og glöggir menn sjá er númerið GK 357 en GK 57 er komið á arftaka hans í Póllandi sem kemur til heimahafnar á miðju ári. https://www.facebook.com/Bataogbryggjubrolt/videos/1427835430658895/
Lesa meira

Fjárfestingar og framtíðarsýn

Árið 2017 hefur verið viðburðaríkt hjá okkur í Vísi. Fyrir utan hefðbundinn rekstur hefur margt gengið eftir sem við stefndum að. Fyrr á árinu seldum við eign okkar í Kanada og er efnhagsreikningur félagsins er nú einfaldari og heilbrigðari. Áfram hefur verið unnið með Marel að nýjum tæknilausnum í vinnslunni og kom ný gæðaskoðunarlína í hús í haust í stað hefðbundinnar snyrtilínu. Í Póllandi er unnið að endurbygginu á gömlu Arney ex Skarðsvík. Ekkert er skilið eftir af gamla skipinu nema 2/3 af stálinu og er því nánast hægt að tala um nýsmíði. Mun það skip – sem gengið hefur undir vinnuheitinu Sævík - koma til landsins á miðju ári 2018 og leysa af hólmi Sighvat GK sem þjónað hefur okkur frá árinu 1980. Í vikunni var svo skrifað undir samning um nýsmíði í stað Páls Jónssonar GK sem koma mun til okkar á miðju ári 2019. Jafnframt er í þeim samningi ákvæði um annað samskonar skip sem kæmi til landsins ári síðar ef við kjósum svo. Það skip myndi leysa Kristínu GK af hólmi. Það eina sem þá væri eftir við endurnýjun flotans væri að Jóhanna færi í allsherjar klössun sem lyki á árinu 2021 en eins og menn muna kom Fjölnir GK endurbyggður til landsins fyrir rúmu ári. Gamli Fjölnir – eða Hrungnir eins og hann hét lengst af – fékk virðulega útför í Njarðvíkurslipp á miðju þessu ári eftir áratuga þjónustu og félagsskap við okkur. Á sama degi og skrifað var undir nýsmíðina, 12. desember sl., var einnig skrifað undir samruna Vísis og Marvers ehf. sem gerir út Daðey GK. Með henni fylgja 1100 tonna veiðiheimildir sem styrkja landvinnsluna okkar sem því nemur. Palli Jói og Munda eru því komin með okkur af fullum krafti í þau verkefni sem framundan eru. Allt er þetta sérstaklega ánægjulegt og uppörvandi fyrir komandi ár og gert í trausti þess að rekstrarumhverfi greinarinnar verði samkeppnisfært á komandi árum. Við munum áfram treysta á íslenskt hugvit og þekkingu í uppbyggingu okkar, eins og við höfum gert með Marel, NAVIS og Raftíðni í ofangreindum fjárfestingum. Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð. Pétur Hafsteinn Pálsson
Lesa meira

Árshátíð Vísis og myndbandið

Árshátíð Vísis og myndbandið Vísir hélt sína fyrstu árshátíð laugardaginn 18.nóvember í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Eftir fordrykk í Rokksafninu hélt hópurinn inn í stóra salinn þar sem veislustjórinn Þórunn Lárusdóttir hélt stemningunni uppi með skemmtun, söng og pub-quiz leik á milli borða, áður en Víðir og Dýrið þeyttu skífum fram á nótt. Hápunktur kvöldsins var samt árshátíðarmyndbandið þar sem starfsmenn Vísis fóru á kostum í leik og starfi. Það voru strákarnir í Beit.is sem sáu um árshátíðarmyndbandið skemmtilega, sem nálgast má hér: Árshátíðarmyndband Vísis 2017 – fyrri hluti Árshátíðarmyndband Vísis 2017 – seinni hluti
Lesa meira

Gæðaskoðun í stað snyrtilínu

Í síðustu viku tók Vísir í notkun nýja gæðaskoðunarlínu frá Marel og kom hún í stað snyrtilínunnar, sem hingað til hefur verið ómissandi hluti frystihúsa hér á landi. Frá því að frystihúsið opnaði árið 2014, með FleXicut skurðarvélina í fararbroddi, hafa reglulega orðið breytingar til að bæta flæðið í gegnum húsið og auka gæði. Nýja gæðaskoðunarlínan er stór og mikilvægur þáttur í þeirri þróun.
Lesa meira

Fjölskylduhátíð

Á laugardaginn var haldin fjölskylduhátíð í Vísi þar sem starfsmenn og börn þeirra skemmtu sér í alls kyns þrautum og leikjum. Um 90 manns mætti á skemmtunina sem haldin var í Hópinu. Gestir gæddu sér á kjötsúpu og vefjum, og svo sló ísinn frá Valdísi í gegn hjá öllum aldurshópum. Meðfylgjandi eru myndir af hátíðinni sem heppnaðist einstaklega vel.
Lesa meira

Íslandsmeistaramót Sjóarans síkáta í ísbaði

Íslandsmetið í ísbaði var slegið svo um munaði á fimmtudeginum fyrir sjómannahelgi. Þeir Páll Hreinn Pálsson og Algirdas Kazulis enduðu saman með metið sem var rúmar 32 mínútur. Fyrra íslandsmet var rúmar 20 mínútur.
Lesa meira

"Wild Icelandic Cod" sigurvegarar Hnakkaþonsins

Vísir lék stórt hlutverk í útflutningskeppni sjávarútvegsins, Hnakkaþon, sem var haldið í síðustu viku á vegum HR og SFS. Áskorunin snerist um að móta tillögur að því hvernig Vísir gæti aukið fullvinnslu í neytendaumbúðir á ferskfiski á Íslandi á sama tíma og fullt tillit væri tekið til kostnaðar, sjálfbærni og umhverfisáhrifa, og unnu nemendur meðal annars með Marel og Prentsmiðjunni Odda. Fimm lið skiluðu inn fjölbreyttum tillögum en vinningstillagan í Hnakkaþoninu 2017 bar heitið "Wild Icelandic Cod" og snerist um sérstakar umbúðir sem leggja áherslu á ferskleika, gæði, umhverfisvernd og sögu Vísis en innihalda líka einfaldar uppskriftir, sem henta meðvituðum neytendum í nútímasamfélagi.
Lesa meira

Nemendur HR vinna verkefni með Vísi, Marel og Odda

Vísir tekur þátt í Hnakkaþoni 2017. Hnakkaþon Háskólans í Reykjavík (HR) og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hófst í dag og er nú haldið í þriðja sinn. Í Hnakkaþoni reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Að þessu sinni munu nemendur vinna að verkefni með Vísi í Grindavík, Marel og prentsmiðjunni Odda. Fréttatilkynninguna í heild sinni má sjá hér að neðan.
Lesa meira

Tilkynning til starfsfólks um vinnslustöðvun v/ hráefnisskorts í kjölfar verkfalls sjómanna

Tilkynning til starfsfólks um vinnslustöðvun v/ hráefnisskorts í kjölfar verkfalls sjómanna Grindavík 22. Desember 2016 Vegna verkfalls fiskimanna sem hófst 14.desember 2016 er ljóst að hráefnisskortur mun leiða til vinnslustöðvunar í fyrirtækinu Vísi hf. Af þessum ástæðum verður ekki komist hjá því að tilkynna starfsfólki fyrirsjáanlega vinnslustöðvun hjá Vísir hf Frá og með 27. Desember 2016 Ákveðið hefur verið að nýta heimild í lögum, sbr. Gr. 18.4.8.7. í kjarasamningi SGS og Samtaka atvinnulífsins, og fella niður launagreiðslru frá og með 27.12.2016 verði ekki búið að leysa verkfallið fyrir þann tíma. Starfsfólk verður að skrá sig hjá vinnumiðlun til að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Vísir hf., mun í samráði við Verkalýðsfélag Grindavíkur og Vinnumálastofnun veita nánari upplýsingar um fyrirkomulag umsókna. Starfsfólk þarf að skrá sig á vef Vinnumálastonunar www.vinnumalastofnun.is eigi síðar en 27. Desember 2016. Vísir hf Pétur H. Pálsson
Lesa meira